Aðgengi að lífinu

Að setja sig í spor annarra getur verið ómetanlegur lærdómur. Verkefnið Aðgengi að lífinu er afar áhugavert verkefni sem MND félagið, með styrk frá Velferðarráðuneytinu, hefur boðið nemendum í 10. bekk að taka þátt í síðastliðin tvö ár. Þar fá nemendur fræðslu um aðgengismál hreyfihamlaðra frá þeim Guðjóni Sigurðssyni formanni MND félagsins og Arnari Helga Lárussyni formanni Samtaka endurhæfðra mænuskaddaðra og atvinnumanni í hjólastólaakstri. Þeir félagar eru báðir þekktir fyrir að hafa húmor fyrir lífinu og eigin aðstæðum. Að fræðslu lokinni er nemendum skipt í 3-4 manna hópa hafi þau áhuga á því að taka þátt í verkefninu.  Hver hópur fær hjólastól að láni í einn sólarhring. Krökkunum er ætlað að taka stólinn með sér hvert sem þau fara á venjulegum degi, á bókasafnið, æfingar, afmæli, bíó eða hvað sem á við hverju sinni. Nemendurnir fá því að finna það á eigin skinni hvernig aðgengi fyrir hreyfihamlaða er háttað í þeirra eigin nær umhverfi. Hvar eiga þau góðan aðgang og hvar upplifa þau hindranir? Nemendum er ætlað að hugsa lausnamiðað um það hvernig bæta megi aðgengið þar sem þau telja að því sé ábótavant. Ungmennin hafa svo viku til að skila inn upplifun sinni og mega þau nota hvaða form sem þau vilja til að koma henni á framfæri s.s. með ritgerð, stuttmynd, slideshow eða öðru.

Markmið verkefnisins er þríþætt:

  1. Að efla skilning ungmenna á aðstæðum hreyfihamlaðra
  2. Að stuðla að bættu aðgengi hreyfihamlaðra með lausnum ungs fólks
  3. Að skapa jafnréttisgrundvöll á milli hreyfihamlaðra og óhreyfihamlaðra

Nú á haustdögum tóku 13 grunnskólar af landinu öllu, eða um 600 nemendur þátt í verkefninu og lauk því formlega með verðlaunaafhendingu mánudaginn 30. nóvember. Að þessu sinnu voru veitt verðlaun fyrir 5 bestu verkefnin og veitti Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson sigurvegurunum viðurkenningu við formlega athöfn í Orkuveituhúsinu. Skólarnir sem viðurkenningu hlutu í ár eru 1. Hraunvallaskóli, 2. Ölduselsskóli, 3. Heiðarskóli, 4. Garðaskóli, 5. Njarðvíkurskóli.

Jafnréttistorg fagnar því að nemendur fái svona flott tækifæri til að setja sig í spor (eða stól) hreyfihamlaðra og átti sig í kjölfarið betur á þeim hindrunum sem leynast víða í samfélaginu okkar. Vonandi verður boðið uppá þetta verkefni aftur að ári og þá hvetjum við enn fleiri skóla til að taka þátt.

 

adgengi 1

adgengi 3