Nýr kennsluvefur um jafnrétti fyrir mið- og unglingastig grunnskóla

Ekki láta þetta framhjá ykkur fara!

Þóra Þorsteinsdóttir kennaranemi og kynjafræðingur hefur búið til kennsluvef um jafnrétti fyrir eldri nemendur grunnskólans. Vefurinn er hluti af meistaraverkefni Þóru í kennslufræði. Kennsluefnið er ætlað efri bekkjum grunnskóla 5.-10. bekk. Það samanstendur af sex æfingum og einu hópverkefni og hver æfing stendur sjálfstætt og því er frjálst að velja og nýta eitt verkefni. Stök æfing gæti átt heima í námsgreinum eins og samfélagsfræði, sögu, íslensku og stærðfræði. Séu verkefnin tekin saman standa þau sem heilt kynjafræðinámskeið sem hefst á sex æfingum sem allar miða að því að æfa nemendur í að geta unnið að hópverkefni sem ber heitið „Þetta er ekki æfing“.

Á vefnum má einnig finna kennsluefnið í prentvænni pdf útgáfu. Þar eru kennsluáætlanir fyrir æfingarnar og hópverkefnið, með tilheyrandi hæfniviðmiðum og lýsingum á nauðsynlegum gögnum. Framkvæmd kennslustundarinnar er lýst í skrefum. Það er tillaga að námsmati og að lokum er fræðilegur rökstuðningur. Hæfniviðmiðin eru unnin upp úr hæfniviðmiðum fyrir samfélagsgreinar í Aðalnámskrá grunnskóla (2013) og sömuleiðis námsmatið sem er í bókstöfum eins og námskráin gerir ráð fyrir. Á þessum vef eru til viðbótar rafræn námsgögn sem ekki rúmast í prentvæna pdf skjalinu. Á vefnum eru tenglar að myndböndum, útprentanleg verkefni, myndir eða glærur, einnig eru tillögur að frekara efni til að skoða og tenglar á vefi með góðum upplýsingum.