Fræðsla um Mannréttindastefnu Reykjavíkur

Fræðslan er fyrst og fremst fyrir starfsstaði Reykjavíkurborgar. Farið er yfir mismunandi þætti mannréttindastefnunnar og rætt um dæmi sem varpa skýrara ljósi á stefnuna. Fræðslan er í fyrirlestraformi og það er einnig hvatt til umræðu. Fyrirspurnir vegna þessa eða beiðni um fræðslu má senda á mannrettindi@reykjavik.is




Jafnréttisfræðsla skiptir máli




Jafnréttisfræðsla á að fara fram á öllum skólastigum!




Kynjuð leikföng

Ert þú að vinna með börnum, ertu foreldri eða áttu yngri systkini? Hefur þú velt því fyrir þér hversu kynjuð leikföng geta verið? Hefur þú velt því fyrir þér hvaða áhrif kynjuð leikföng hafa á félagsmótun barna?

Kíktu í hugmyndabankann, veldu leikskólastig eða yngsta stig og lestu meira um stelpuleikföng og strákaleikföng!




Typpið mun finna þig – Málþing

Typpið mun finna þig: Gagnkynhneigð, grunnskólinn og hinsegin fræðsla er verkefni sem Sólveig Rós M.A. í stjórnmálafræði vann í samvinnu við Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar, Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar og var styrkt af Nýsköpunarsjóði námsmanna. Sólveig Rós mun halda fyrirlestur um rannsókn sína og niðurstöður þann 12. apríl n.k. í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur frá kl. 16:00 til 17:15.

 

Markmið verkefnisins var að skoða hvort að kynfræðslukennsla í unglingadeildum grunnskóla Reykjavíkurborgar tæki tillit til hinsegin nemenda eða hvort að fræðslan gangi út frá því að nemendur séu gagnkynhneigðir.

 

Niðurstöður úr rannsókninni gefa sterkar vísbendingar um að hinsegin kynfræðslu sé verulega ábótavant í grunnskólum borgarinnar. Niðurstöðurnar sýna jafnframt að þrátt fyrir það að kennarar reyni að hafa hinsegin nemendur í huga við kennslu þá er það upplifun nemenda að það sé gert ráð fyrir því að allir séu gagnkynhneigðir þangað til að annað kemur í ljós.

 

Mikil þögn ríkir um hinsegin kynvitundir og ódæmigerð kyneinkenni og hinsegin ungmenni upplifa kynjaðar væntingar um hvernig þeirra kynhegðun skuli vera. Því er hægt að segja að hinsegin nemendur séu ekki að fá kynfræðslu við sitt hæfi. Hér eru því mikil tækifæri til að bæta kennsluefni og kennsluaðferðir og opna umræðuna um fjölbreytileika nemenda og þeirra þarfir.

Jón Ingvar Kjaran, nýdoktor og aðjúnkt við MVS Háskóla Íslands mun halda erindi sem ber heitið Hinsegin menntunarfræði og hinsegin fræðsla. Í erindinu ræðir hann inntak hinsegin menntunarfræða og veltir því fyrir sér hvernig hægt er að innleiða slíka nálgun í kennslu og skólastarfi. Enn fremur mun hann ræða núverandi Aðalnámskrá og hvað hún hefur að segja um hinsegin fræðslu. Að lokum mun hann velta því fyrir sér hvernig hinsegin fræðsla er framkvæmd innan skólakerfisins og hvað má gera betur í þeim efnum.

Rósa Guðný Arnardóttir sem starfar í Jafningjafræðslu Samtakanna ´78 mun halda stutt erindi.

 

Umræður verða í lokin.

 

Málþingið er opið öllum og aðgangur er ókeypis.

Boðið verður upp á kaffi, te, kleinur og ávexti á meðan fyrirlestrum standa.

 




,,Typpið mun finna þig” Gagnkynhneigð, grunnskólinn og hinsegin kynfræðsla

Er rými fyrir fjölbreytileika mannlífsins í kynfræðslu grunnskólanemenda?

Sólveig Rós Másdóttir fékk styrk úr Nýsköpunarsjóði námsmanna 2015 til að rannsaka hinsegin kynfræðslu í grunnskólum Reykjavíkur. Sólveig vann rannsóknina í samstarfi við Mannréttindaskrifstofu borgarinnar og skóla- og frístundasvið/Jafnréttisskólann. Niðurstöður úr rannsókninni gefa sterkar vísbendingar til þess að hinsegin kynfræðslu sé verulega ábótavant í grunnskólum borgarinnar. Jafnréttistorg mælir með því að allt starfsfólk skóla- og frístundasviðs og þá sérstaklega kennarar og skólastjórnendur lesi skýrsluna. Mikilvægt er að hver og einn meti stöðuna í sínum skóla og leiti leiða í kjölfarið til að bæta fræðsluna, öllum til hagsbóta.

Á þessari slóð má lesa skýrsluna í heild:

nyskopunarsjodsverkefni_solveig_ros_2015_2_0




Jafnrettistorg.is

logo
Í dag opnar Skóla- og frístundarsvið Jafnréttistorg þar sem hægt er að finna fjölbreytt kennsluefni um jafnrétti. Um er að ræða vef sem er allt í senn kennsluvefur, hugmyndabanki og fréttavefur um jafnréttismál í skóla og frístundastarfi borgarinnar.
 
jafnrettistorg_sida
Á vefnum getur starfsfólk fundið ýmsar hugmyndir um jafnréttisstarf með börnum og ungmennum, allt frá leikskólaaldri og til unglingsára. Vefurinn er í anda mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar þar sem fjallað er um um jafnrétti í víðum skilningi. Jafnréttisflokkarnir sem vefurinn nær til eru fjórir, fjallað er um kyn, hinsegin fólk, fötlun og uppruna.
Fjölmargar hugmyndir um kennslu- og umræðuefni eru nú þegar komnar inn á vefinn en fólk er hvatt til að senda inn fleiri hugmyndir því vefurinn mun verða í stöðugri þróun.
Jafnrettistorg.is er samstarfsverkefni skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar og Menntamiðju Menntavísindasviðs Háskóla Íslands.
jafnrettistorg_sida2
Síðan er mjög aðgengileg og er efnið á síðunni flokkað eftir aldir nemenda, hvað skal kennt og hvort um kennsluefni eða starfsþróunarefni er að ræða.
 
Frekari upplýsingar veitir Fríða Rós Valdimarsdóttir frida.ros.valdimarsdottir@reykjavik.is. 



Afrekskonur

Sýningafrekskonurin Afrekskonur stendur nú yfir í Ráðhúsi Reykjavíkur og má þar finna sögu kvennabaráttu á Íslandi sem varpað er fram á fjölbreyttan hátt.

Á sýningunni er gerð grein fyrir framlagi kvenna til íslensks samfélags, persónulegum og pólitískum sigrum, afrekum í hversdagslífi og á opinberum vettvangi. Afrekskonur er samspil margra ólíkra sýninga sem hafa verið settar upp og/eða eru yfirstandandi í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna.

Konubókastofa gefur gestum tækifæri til að glugga í bækur um konur og eftir konur.
Í krakkahorninu er hægt að velta fyrir sér spurningum varðandi hlutverk kynjanna og leikföngum í því samhengi.

 
afrekskonur2Á meðan á sýningu stendur verður haldið áfram að safna afrekssögum af konum í gegnum netfangið afrekasyning@reykjavik.is og á www.afrekskonur.is. Sýningin verður opin í september og verða viðburðir allan mánuðinn tengdir afrekskonum. #afrekskonur
 
Nemendahópar eru velkomnir á sýninguna og er gott tækifæri til að kynna þeim fyrir afrekum kvenna í gegnum tíðina. Við mælum með að gera verkefni eftir heimsóknina þar sem hver nemandi, og kennari, sendi inn sögu af afrekskonu úr sínu nærumhverfi á afrekasyning@reykjavik.is.
 



Stelpur filma!

þatttakendur  
14. til 18. september fór fram í Norræna húsinu námskeiðið Stelpur filma! sem var samstarfsverkefni MIXTÚRU og RIFF. Þar komu saman 66 stelpur úr 11 grunnskólum Reykjavíkurborgar til að læra að búa til kvikmynd. Á námskeiðinu þurftu nemendur úr hverjum skóla að fullgera eina eina 5 mínútna stuttmynd.

Kennarar á námskeiðinu voru þau Áslaug Einarsdóttir stofnandi Stelpur rokka!, Baltasar Kormákur leikstjóri, Elísabet Ronaldsdóttir klippari, Ísold Uggadóttir leikstjóri og Margrét Örnólfsdóttir handritshöfundur. Erla Stefánsdóttir, frá Mixtúru-Margmiðlunarveri Skóla- og frístundasviðs, sá um tæknilega kennslu og Fríða Rós Valdimarsdóttir, verkefnastjóri Stelpur fividtal_stelpurlma!, sá um  jafnréttisfræðslu. Einnig kíkti Steiney Skúladóttir úr Reykjavíkurdætur og Hraðfréttum í heimsókn til stelpnanna sem sérstakur leynigestur.

Stelpur filma! var haldið í fyrsta skipti í ár í tilefni af 100 ára kosningaréttarafmæli kvenna á Íslandi en er hugsað til framtíðar. Námskeiðið er liður í því að rétta af þá kynjaskekkju sem skekir kvikmyndagerð á Íslandi.

Námskeiðið byggir á hugmyndafræði rokkbúðanna Stelpur rokka! þar sem leitast er við að hafa einungis konur sem leiðbeina og kenna. Með því er verið að skapa sem öruggasta rými sem kostur er á fyrir stelpur til að skapa og tjá sig.

Námskeividtalðið tókst vonum framar. Stelpurnar sýndu mikinn metnað á námskeiðinu og voru afskaplega áhugasamar. Það verður spennandi að sjá myndirnar. Þær verðu aðgengilegar á netinu og munum við setja þær inn á Jafnréttistorgið svo kennarar geti nýtt sér þær hvort sem er til afþreyingar eða í kennslu.

Frumsýningin verður háleynileg en almenningi gefst kostur á að sjá myndirnar á RIFF helgina 3. og 4. október klukkan 13 í Norræna húsinu. Aðgangur er ókeypis.

balti




Um Jafnréttistorg

jafn800x600-01Jafnréttimál þykja oft leiðinlegt, erfið, að þau séu stöðnuð og að í þeim felist endalaus togstreita og ásakanir. Það er alveg rétt að stundum er þátttaka í jafnréttisstarfi eins og að ganga um á hugmyndafræðilegu jarðsprengjusvæði. Er miklu oftar er það gefandi, hressandi, kætandi og mannbætandi. Það að vinna að jafnréttismálum krefst þess nefnilega að við hugsum út fyrir boxið, stígum út fyrir þægindarammann okkar og setjum spurningamerki við það sem okkur hefur verið leynt og ljóst kennt frá fæðingu að sé eðlilegt og náttúrulegt.

Jafnréttistorgi er ætlað að vera starfsfólki í skóla- og frístundastarfi innblástur til að huga að jafnréttismálum í starfi sínu.